top of page
  • Writer's pictureLára Borg

Peningaplokk, litríkir kjólar og kristaltært vatn

Eftir að hafa náð mér aðeins niður á jörðina í strandareinangrun minni, var kominn tími á að koma sér aftur inn í samfélagið. Við tók því 5 tíma rúta frá Santa Marta til Cartagena en það er varla hægt að finna líflegri borg en það. 

Ég eyddi fyrsta deginum í að fara í skipulagðan göngutúr um borgina og læra um söguna sem ég get ómögulega endurtekið þar sem litli ofvirki heilinn verður auðveldlega truflaður af fallegum byggingum, konum í litríkum kjólum, sölumönnum og 35 stiga hita. Sagan er samt mjög góð og þú kæri lesandi skalt endilega kynna þér hana á veraldarvefnum, eða jafnvel í borginni sjálfri. Miðbærinn er fyrir innan veggi og eru þar endalaust af litríkum og fallegum húsum, torgum og þröngum götum. Borgin minnti smá á Barcelona en hún var þó töluvert ýktari útgáfa. Við fórum svo nokkur í almenningsgarðinn Centenario Park en þar búa sloths og risastórar eðlur sem ég stóð heilluð og horfði á. Þess má einnig til gamans geta að næturlífið í Cartagena á að vera virkilega gott og þurfti maður því að fara í nokkra könnunarleiðangra til þess að athuga málið. Ég get hér með staðfest að það er rétt.

Ég fór með nokkrum á ströndina Bocagrande á degi þrjú, og ég get sagt ykkur það að sá staður er rassgat Cartagena. Við settumst niður og á um það bil 30 sekúndum voru 15 manns búin að umkringja okkur að reyna að selja okkur hina ýmsu hluti, þjónustu og mat. Eftir smá stund vorum við öll komin með manneskju aftan á okkur að nudda okkur þrátt fyrir að margreyna orðið Nei. Sumir voru einnig með manneskju að klippa táneglur, aðrir með manneskju að troða krabbaleggjum í fangið á þeim og einhverjir með mannekskju sem var byrjuð að flétta hár. Það er vert að nefna að við vorum einungis fimm saman svo við vorum vel yfirmönnuð af sölufólki. Svo kom að því að rukka og eftir að hafa reynt að ná upphæðinni niður fékk einn í hópnum að heyra að hann yrði skotinn svo við enduðum á því að borga það háar upphæðir að við borguðum líklegast mánaðrlaun þeirra allra. En hey, maður lifir og maður lærir. Ekki fara á mestu túristaströnd borgarinnar þar sem Cartagena er þekkt fyrir að reyna að svindla á “Gringos”. Við lyftum svo stemningunni aðeins upp, fengum okkur bjór og fórum á bananabát og voru þar með allir búnir að gleyma morðhótunum og peningaplokki. Þetta kvöld var svo Halloween svo við fundum búninga og fórum í enn einn könnunarleiðangur um næturlífið. Það var enn gott.

Ég lagðist á koddann minn um 4:30 leytið þá nóttina og átti svo að vera mætt niður á höfn 8:15 nokkrum tímum seinna til þess að ná bát kl 9:00 þar sem leiðinni var haldið á eyju 2 tímum fyrir utan borgina. Næsta morgun opna ég augun, lít á klukkuna sem var þá 8:25 og átti ég þá eftir að koma draslinu mínu í tösku, checka út og koma mér niður á höfn sem átti að vera 20 mínútna labb. Ég sendi strax skilaboð á bátafyrirtækið og spurði þau hvort það væri einhver bátur sem færi seinna um daginn og fékk ég svarið “Nei, þetta er eini báturinn”. Ég fékk því einhvern ofurkraft í rassinn og náði að koma mér út og hlaupa niður á höfn með þunga tösku í 30 stiga hita og mætti á slaginu 8:57, það sveitt að ég hefði getað gefið heilu þorpi að drekka. En það var aukaatriði þar sem ég komst með í bátinn. 


Eftir tvo erfiða klukkutíma í hossóttum bát kom ég á hostelið Casa en el Agua, eða Húsið á vatninu, sem er hostel staðsett á miðju vatni svo hostelið sjálft er eyjan. Ég hresstist fljótt við þrátt fyrir tæplega 4 tíma svefn og hafðist handa við að snorkla með fiskunum, paddelboarda og kayaka í tærasta vatni sem ég hef á ævinni séð. Casa en el agua er “Eco Hostel” og er því lagt mikið upp úr því að spara vatn, en safna þau regnvatni í tanka og nota það í sturtur og vaska og nota allt sem safnast í klósettið fyrir áburð á meginlandinu. Þau styrkja einnig samfélögin á umkringjandi eyjum og skapa störf fyrir fólk sem þar býr. En fyrir litla vitleysingja með bakpoka eins og mig er þetta fyrst og fremst paradís á daginn og drykkjuráðstefna á kvöldin. Fyrsta kvöldið mitt þar upplifði ég bucket list dæmi þar sem við fórum með bát að kvöldi til að snorkla í vatninu til þess að sjá planktons, eða Bioluminescent dinoflagellates. Ég biðst afsökunar á þessum flóknu nöfnum en ég hef ekki hugmynd hvað þetta kallast á íslensku (endilega holla at me ef þú ert með íslenska heitið). En þetta eru semsagt einhversskonar frumur eða bakteríur í vatninu sem lýsast upp í vatninu við hreyfingu. Svo við syntum þarna í vatninu heillengi og busluðum eins og við fengjum borgað fyrir það til þess að lýsa vatnið upp enn meira.

Næsta dag heimsóttum við svo eyjuna Islote sem er þéttbyggðasta eyja í heimi en er hún um 1200 metrar á lengd og 100 metrar á breidd og búa þar um 1000 manns. Eyjan er að miklum parti undir vatni en þurfti maður að vaða í um 5-10 cm af vatni á flestum göngustígum. Restin af tímanum fór svo í meira snorkl, twister úti á miðjum sjó, salsa og að lokum svaf ég svo undir berum himni í hengirúmi og lét rugga mér í svefn við hafgoluna. Ég myndi klárlega mæla með því fyrir alla að gera sér ferð þangað ef þú ert í nágrenni við Cartagena þar sem þetta var geggjuð upplifun! 152 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page