Medellín - borg menningar, kaffiplantekra, götulistar og jú kæri lesandi þú giskaðir rétt, Medellín var einnig heimili hins alræmda Pablo Escobar sem lést einmitt þar fyrir nokkrum árum eða árið 1993. En það er ekki það sem þessi færsla fjallar um. Hún fjallar um töluvert meira krassandi viðfangsefni en það - Hún fjallar um mig.
Ég tók rútu frá Cartagena seinnipart föstudags og átti það að vera 13 tíma rúta svo áætluð koma var um 7 næsta morgun. Mér tekst hins vegar sjaldan að læra af mistökum og treysti ég því að sá tími myndi standast. Ég hef líklegast gleymt því að ég væri stödd í Kólumbíu en þessi rúta endaði á að verða um 21 tíma löng og var ég því mætt um 3 leytið næsta dag, glorhungruð því ég hafði ætlað mér að borða morgunmat á áfangastað. En áfram gakk, vonandi læri ég að vera með neyðarnesti í næstu rútuferð.
Ástæða þess að ég fór til Medellín var ekki einungis til þess að skoða fallega götulist og fræðast um Pablo vin minn heldur var ég búin að skrá mig í viku spænskuskóla. Skólinn heitir Blink og bjóða þau upp á að maður búi á dorm í skólanum þar sem morgunmatur og hádegismatur var innifalinn. Ég mætti því eins og 6 ára á mánudagsmorgni með litla stílabók og yfirstrikunarpenna tilbúin í fyrsta skóladaginn. Í fyrsta tímanum bölvaði ég 18 ára Láru fyrir að vera fífl þar sem ég mundi lítið sem ekkert úr Verzlóspænskunni minni. Takk samt Svanlaug og Hilda fyrir að reyna, ég veit þið reynduð ykkar besta. En þarna var ég komin í alvöru fullorðins tíma þar sem var ekki mikið svigrúm til þess að vera 18 ára gelgja. Tímarnir voru 4 tíma á dag í 5 daga ásamt tveim einkatímum. Eftir hvern og einn tíma var hausinn gjörsamlega búin á því en á góðan hátt því ég fann að ég var að læra mikið. Svo hjálpar auðvitað að búa þar sem ég gat æft það sem ég lærði þann daginn.
Á kvöldin eldaði fólk saman í eldhúsi sem hægt var að finna 1 pott, 2 gaffla og 1 skeið og þurfti maður því að vera virkilega skapandi í eldhúsinu. Og með skapandi þá á ég við að ég keypti tilbúinn mat og borðaði hann úr poka með plastgaffli. Á milli þess sem maður reyndi að finna lausnir í eldhúsinu vann maður heimavinnu, fékk sér bjór og eitt kvöldið skelltum við okkur á fótboltaleik sem er eitt af því sem ég mæli með að allir geri í Medellín!
Á fimmtudeginum heimsótti ég svo Communa 13 sem fyrir 20-30 árum var talið eitt hættulegasta hverfi í heimi. Á þeim tíma bjuggu þar einungis fátækir einstaklingar og minnihlutahópar og var hverfinu stjórnað af stórum og hættulegum eiturlyfjahringum og var líklegt að verða skotin skyldi maður stíga óboðinn inn í hverfið. Þetta var virkilega hentugt hverfi fyrir svona starfsemi þar sem göturnar eru þröngar svo erfitt var að sjá hvað gekk á, hvort sem það voru morð eða eiturlyfjasölur og er hverfið einnig staðsett í brattri hæð svo stjórnendur eiturlyfjahringanna gátu auðveldlega verið með yfirsýn fyrir ofan. Árið 2002 planaði svo þáverandi forseti innrás inn í hverfið með það markmið að taka niður starfsemina en gerði þessi innrás það að verkum að um 100.000 íbúar létust, flestir þeirra alsaklausir. Nokkrum árum eftir þetta voru þeir íbúar sem eftir voru orðnir þreyttir á ástandinu og hafðist mikil uppbygging sem stjórnvöld tóku þátt í. Listamenn voru fengnir til þess að skreyta veggi hverfisins og sér maður allstaðar mögnuð listaverk sem öll eiga sér sögu. Frá árinu 2016 var hverfið talið meira en öruggt fyrir ferðamenn að heimsækja og er það einn vinsælasti ferðamannastaður í Kólumbíu.
Í lok vikunnar var svo fagnað enda spænskuskólans allrækilega og var einn úr skólanum sem bauð í partý í bachelor svítunni sinni sem var með rooftop svalir yfir alla borgina. Kvöldið endaði svo á klúbbnum þar sem salsa útgáfur af mainstream lögum ómaði.
Daginn eftir átti ég svo flug til Ecuador og hófst þar með einn eitt ævintýrið.
Comments