top of page
  • Writer's pictureLára Borg

Djúpar pælingar í hæstu höfuðborg heims

Klukkan er 23:00 á fallegu laugardagskvöldi og ég er nýbúin að láta ofrukka mig fyrir þurra samloku á flugvellinum í Medellín tilbúin í nýtt land - Ecuador. En eins og allir vita, þá telja hvorki peningar né kaloríur þegar maður er staddur á flugvelli. Ég taldi mig einnig hafa unnið þann pening til baka þegar ég var ekki rukkuð fyrir ofvaxna bakpokann minn við hliðið svo ég tel að allir hafi unnið hér. Nema vissulega flugfélagið.

Ég mætti fersk til Quito og fann í fyrsta skipti í langan tíma fyrir kulda, sem var heimilisleg tilfinning en ég varð fljótlega leið á því. “Ég sakna kuldans á Íslandi”, sagði nefnilega enginn aldrei.

Ég byrjaði fyrsta daginn minn í Quito á að fara í ‘walking tour’ um miðborgina sem var mjög skemmtilegt og áhugavert. Ég hélt hins vegar að ég myndi láta lífið eftir 2 mínútna göngu upp brekku, en Quito er hæsta höfuðborg í heimi staðsett í um 2800 metra hæð, og er því andskoti erfitt að labba um og almennt að anda inn súrefni. Ég brosti í gegnum sársaukan og lét eins og ég heyrði ekki í fólki sem reyndi að tala við mig þar sem ég gat ómögulega myndað setningu í þessari allsvakalegu göngu. Við skoðuðum meðal annars kaþólsku kirkjuna Basílica del Voto Nacional sem hefur aldrei formlega verið kláruð. Yfirskin þess er að ef kirkjan er formlega tilbúin þá mun heimurinn enda. En í raun og veru þá er ástæðan líklega sú að um leið og kirkjan er tilbúin þá hættir hún að fá fjármagn frá ríkinu. Á kirkjunni eru einnig skúlptúrar af einhverskonar dýri sem var erfitt að átta sig á hvað væri en fengum við að vita að þetta væru naggrísir. En ekki bara naggrísir í blóma lífsins, heldur eldaðir naggrísir þar sem þeir eru hið mesta lostæti í Ecuador. Svo auðvitað er rökréttast að skella skúlptúrum af elduðum naggrísum með angistarsvip utan á kirkjuna. Við löbbuðum einnig um allt aðalsvæðið, smökkuðum skot sem eru hið suður ameríska snaps, eða aquariente sem voru sett inn í nammi, skoðuðum fallegar byggingar, fórum í súkkulaði kynningu og fleira. Svo ég náði að læra ansi mikið um borgina á nokkrum tímum. En ekki spyrja mig að neinu, nema það snúi að mat.

Í Quito heimsótti ég einnig miðbauginn og hoppaði á milli suðurs og norðurs. Þar gerðum við meðal annars tilraun á því hvernig vatn sturtast mismunandi niður á norður- og suðurhveli. Tekinn var einhverskonar vaskur og vatni helt niður norðan megin við miðbauginn og sturtaðist vatnið þá réttsælis og öfugt sunnanmegin. En ef hann var staðsettur á miðjunni þá fór vatnið beint niður. Eitthvað til að hugsa um næst þegar þú situr á dollunni.

Nálægt Quito er svo hægt að finna lítinn bæ sem heitir Mindo. Ég fór í smá ferðalag með 22 ára kanadískum strákling og 45 ára bandarískum ungling. Ég verandi barn sjálf skemmti mér því ekkert eðlilega vel í ævintýrinu okkar þar sem við heimsóttum fiðrildahús og stálum þar óvart fiðrildi, fórum í ziplining og syntum í stórum fossi. Inn á milli ævintýra sátum við í bíl og spjölluðum um himinn og haf, og allt þar á milli. Bandaríski unglingurinn hafði eytt öllum sínum tíma í að byggja upp hugbúnað sem hann seldi svo og náði að vera hættur að vinna fyrir fertugsafmælið sitt. Ég spurði hann hvort hann myndi í dag, horfandi til baka gera hlutina öðruvísi og hann svaraði því játandi. Þrátt fyrir að vera kominn á eftirlaun ungur og geta þar af leiðandi ferðast um heiminn þá talaði hann um hvað hann hafði að einhverju leyti misst af lífinu. Hann fór aldrei út með vinum, ferðaðist lítið og deitaði ekkert, því honum fannst það tímasóun. Hann vann því bara baki brotnu, daga og nætur og gerði mest lítið annað. Hann reynir því í dag að bæta upp fyrir það með því að skoða heiminn og safna minningum.

Þetta er klárlega eitthvað sem ég hugsa mikið um og er eitthvað sem hræðir mig. Að vakna upp einn daginn og líða eins og þú hafir misst af lífinu. Auðvitað er alltaf einhver gullinn millivegur og allir þurfa að finna sínar leiðir í lífinu, en ég held samt að þetta sé góð áminning fyrir alla. Að staldra aðeins við og njóta augnabliksins. Þetta er eitthvað sem maður heyrir oft en ég held að maður þurfi stanslaust að minna sig á það. Og það er ekki þar með sagt að það þurfi allir að fara í bakpokaferðalag til þess að njóta lífsins, heldur að finna hvað það er sem gerir okkur hamingjusöm og að læra að njóta allra litlu mómentana sem að skapa lífið. Bara að stoppa aðeins í þessu blessaða amstri sem við tökum þátt í alla daga og finna út hver við erum án allra væntinga frá samfélaginu og fólki í kringum okkur. Bara anda inn og anda út.

Að hitta fólk sem hefur farið mismunandi leiðir í lífinu hjálpar manni að fá annað sjónarhorn á lífið og ég hef fundið það í gegnum mín ferðalög hvað allir hafa sína sögu að segja. Það þurfa ekki allir að fara sömu leiðina og það er engin rétt leið.

Já góðir hálsar, þrátt fyrir að vera barn í fullorðnum líkama, þá er ég samt mikill pælari um lífið og tilveruna.

En Quito var æði, yfir og út.
98 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page